22 Febrúar 2007 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði karlmann á sextugsaldri í miðborginni í gærmorgun en sá ók gegn rauðu ljósi. Það er vart í frásögur færandi en afskiptum lögreglu lauk með því að maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð. Ástæða þessa var að maðurinn neitaði að gefa upp nafn sitt. Svo fór þó að maðurinn sagði til nafns og var honum þá sleppt. Hann hefur í fáein skipti áður komið við sögu hjá lögreglu.
Mikið bar á hraðakstri á síðasta sólarhring en fjörutíu og sjö ökumenn voru teknir fyrir þær sakir. Í nokkrum tilvikum var um ofsaakstur að ræða þar sem ökumenn óku á tvöföldum leyfilegum hámarkshraða. T.d. var hálffimmtugur karlmaður stöðvaður á Sæbraut síðdegis í gær en bíll hans mældist á 120 km hraða en leyfður hámarkshraði er 60. Um svipað leyti var 17 ára piltur tekinn á Álftanesvegi á 125 km hraða en leyfður hámarkshraði þar er 70. Annar ökufantur var tekinn á Hringbraut í Reykjavík. Sá ók á 115 en leyfður hámarkshraði er 50. Enn einn ökufanturinn var stöðvaður á Gullinbrú. Sá var á 112 km hraða en leyfður hámarkshraði er 60.
Þrátt fyrir hraðaksturinn var lítið um umferðaróhöpp. Fimmtán slíkar tilkynningar bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gær og það telst í minna lagi.