30 Maí 2023 16:36
Fjárkúgun í nafni lögreglunnar.
Þessir póstar koma í bylgjum, svindlararnir senda póstana frá nýjum og nýjum netpóstum og nota skammlaust einkenni lögreglu á Íslandi, dómsmálaráðuneytisins, Interpol og Europol. Þeir reyna að telja viðtakanda trú um að pósturinn komi frá lögreglu og segja að viðkomandi hafi komið upp í rannsókn tengdu barnaklámi (Net-Pornography) og er almennt mjög ógeðfelldur. Þá er viðtakenda boðið að gera málið upp með sekt ellegar að fá á sig ákæru og settur á skrá sem færi til birtingar á fjölmiðlum.
Þetta er gert til að hræða viðtakanda og fá fólk til að bregðast við í geðshræringu og senda peninga.
Þessi póstur hefur mælanlega meiri áhrif á þá sem að eru eldri og skilja ekki hversu auðvelt það er að svíkjast til um á netinu. Við vitum að þessir póstar eru til svo tugþúsundum skiptir og er beint gegn Íslendingum. Netsvikararnir miða að því að ná til sín brotaþolum með því að senda út þessa pósta til þúsunda móttakenda. Þeir vita að fæstir falla fyrir þessu en ef þeir senda á nógu marga þá muni einhver falla í gildruna.
Við viljum vekja athygli fólks á þessum svikapóstum.
Þegar þið fáið pósta sem ykkur finnast grunsamlegir, skoðið þá netföngin sem eru notuð. Þau gefa oft sterka vísbendingu um að um svik sé að ræða. Lögregla notar ekki gmail, outlook eða aðrar slíkar þjónustur og er heldur ekki með netföng eins og
logreglan.poliice@XXXXXXX
logreglan4@XXXXXX
davidkouakou278@XXXXXX
Catherine.Martin1@XXXXXX
(Endir netfanganna er falinn. Lögregla mælir ekki með að óvanir einstaklingar séu í samskiptum við netsvindlara.)
Hér fylgja 9 dæmi um þessa pósta sem okkur hafa borist. Augljóslega sjá margir strax í gegnum þá en við verðum að hafa í huga að það gera ekki allir og það er þó nokkuð af fólki sem er óvant því að fá svikapósta af þessu tagi. Við höfum greint að um 92% brotaþola í netsvikum er aldurshópurinn 50 ára og eldri. Netsvik eru mjög alvarleg og lögregla hefur fengið til rannsóknar fjögur mál þar sem að tekist hefur að svíkja 60 milljónir eða meira frá einstaklingum. Heildartjón netsvika sem tilkynnt hefur verið til lögreglu á Íslandi stefnir í að fara yfir 2 milljarði á þessu ári (samantekið tap er núna 1.820.437.656 kr.)
Pössum okkur sjálf og okkar nánustu. Það er ágætt að taka samtalið við ættingja sem eru komnir í áhættuhóp. Farið varlega og munið að netöryggi byrjar á ykkur.