1 Ágúst 2023 14:45

Fjögur mál tengd innflutningi á kókaíni eru til rannsóknar hjá miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Handtökur í málunum fóru fram í síðustu og þar síðustu viku á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan naut liðsinnis sérsveitar ríkislögreglustjóra og tollgæslunnar í þessum málum. Ýmsum aðferðum var beitt við innflutning efnanna m.a. póst- og hraðsendingar sem og notkun burðardýrs.

Alls voru níu handteknir í þessum aðgerðum, en sex sitja nú í gæsluvarðhaldi. Í aðgerðunum var samtals lagt hald á tæp 7 kíló af kókaíni. Hin handteknu eru bæði íslenskir og erlendir ríkisborgarar.

Auk ofangreindra mála er einnig til rannsóknar mál þar sem fíkniefni voru haldlögð í skútu fyrir utan Reykjanes. Í því máli sitja enn þrír í gæsluvarðhaldi. Vegna rannsóknarhagsmuna hefur hingað til ekki verið hægt að gefa upp upplýsingar um magn fíkniefnanna. Lögreglan getur nú upplýst að í skútunni var lagt hald á tæplega 160 kíló af hassi.

Lögreglu grunar að hassið hafi verið flutt frá Danmörku og ætlaður áfangastaður hafi verið Grænland.