25 Maí 2007 12:00
Nokkuð var um slys á fólki á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt en óhöppin voru flest minniháttar. Um miðjan dag datt kona á níræðisaldri í vesturhluta borgarinnar og var hún flutt undir læknishendur. Sama henti fertuga konu á svipuðum slóðum en hún var að ganga niður tröppur þegar hún datt. Konan var með barn sitt í fanginu en barnið sakaði ekki. Skömmu síðar féll þrettán ára piltur af reiðhjóli í Garðabæ en sá var að leika listir sínar þegar óhappið varð. Þetta var slæm bylta og var drengurinn fluttur á slysadeild. Um kvöldmatarleytið fór sjö ára drengur sömu leið en hann beit sig illa í tunguna þegar hann datt af leiktæki. Eftir miðnætti leitaði hálfþrítugur karlmaður sér læknisaðstoðar eftir vinnuslys á byggingarsvæði í Kópavogi og snemma í morgun féll rúmlega sjötugur karlmaður illa í Breiðholti. Honum var ekið á slysadeild.