24 Nóvember 2018 08:54

Samstarf norrænna lögregluliða hefur lengi verið með miklum ágætum, en það fer fram með ýmsum hætti, t.d. er snýr að rannsóknum mála og námi bæði lögreglumanna og annarra starfsmanna lögreglu. Nám þriggja starfsmanna Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er ágætt dæmi um þetta, en lögreglufulltrúarnir Steinarr Kr. Ómarsson og Loftur Kristjánsson og sérfræðingurinn Sigurður Arnarsson sem starfa við tölvurannsóknir hjá embættinu, hafa allir lokið diploma-námi á meistarastigi frá lögregluháskólum á Norðurlöndunum og útskrifuðust sem Nordic Computer Forensic Investigator. Um fjarnám er að ræða og tekur það um eitt ár, en þátttakendur sækja einnig svokallaðar staðarlotur meðan á því stendur. Þremenningarnir, sem sóttu námið í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, lögðu stund á það samhliða vinnu hjá lögreglunni. Námið mun koma þeim að góðum notum í störfum sínum hjá embættinu, en þremenningarnir hafa enn fremur skuldbundið sig til að miðla af þekkingu sinni og munu verða í hópi þeirra sem kenna námið hér eftir. Samningur þess efnis var undirritaður á lögreglustöðinni á Hverfisgötu í Reykjavík í síðustu viku og var meðfylgandi mynd tekin við það tækifæri, en á henni eru Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfðuborgarsvæðinu, Kurt-Helge Hansen yfirlögregluþjónn, fulltrúi norska lögregluháskólans, og þeir Vignir Oddgeirsson, yfirmaður stoðdeilda, Sigurður Steinarr og Loftur, sem allir hafa lokið fyrrnefndu námi líkt og áður sagði og Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn.