28 Júlí 2020 15:02
Undanfarið hafa lögreglu borist töluvert af tilkynningum um ógætilegan akstur unglinga á vespum víðs vegar í umdæminu. Lögreglan vill því brýna fyrir foreldrum/forráðamönnum að ræða við börnin sín um mikilvægi þess að fara varlega á vespum og fylgja umferðarreglum í einu og öllu. Eins vantar nokkuð upp á að hjálmanotkun sé í lagi og er það ekki síst áberandi þegar rafmagnshlaupahjól eru annars vegar. Samkvæmt lögum eiga allir yngri en 16 ára að nota hjálm, en auðvitað ættu hinir eldri að gera það líka öryggisins vegna.
Að detta af vespu eða rafmagnshlaupahjóli (eða hvaða farartæki sem er) getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér og því er mikilvægt að hjálmur sé alltaf notaður.