30 Desember 2022 11:51
Frá klukkan fjögur í nótt og til hádegis á morgun, gamlársdag, er í gildi gul viðvörun vegna veðurs á höfuðborgarsvæðinu. Þá er spáð austan 10-15 m/s og snjókomu. Búast má við skafrenningi með takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. (vedur.is)
Ófært gæti orðið að morgni gamlársdags á suðvesturhorni landsins, Suðurlandi og á Vestfjörðum ef veðurspá gengur eftir. Klukkan sex að morgni gamlársdags gera spár ráð fyrir suðaustanátt, um 10 m/s og snjókomu á höfuðborgarsvæðinu. Mestur verður vindurinn í efri byggðum um morguninn og ófærðin mun ráðast mest af styrk vindsins. Ófærð er líkleg á höfuðborgarsvæðinu, bæði í húsagötum og stofngötum. (vegagerdin.is)
Þau sem eiga eftir að útrétta fyrir áramótin ættu að nýta daginn í dag til þess. Líkur eru á snjóbyl með skafrenningi aðfaranótt og að morgni gamlársdags á suðvesturhorni landsins og ekki gott að vera á ferðinni. Búast má við að færð á vegum verði þung og jafnvel komi til lokana. Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast vel með færð og veðri á umferdin.is ef ætlunin er að aka á milli landshluta. (vegagerdin.is)