6 Júlí 2015 12:40

Frá árinu 2007 til 2015 hefur ofbeldisbrotum í miðborg Reykjavíkur fækkað um liðlega þriðjung, úr 534 brotum í 342. Fjöldi þeirra hefur hinsvegar haldist nokkuð jafn frá 2011 og eru brotin 300 að meðaltali á því tímabili eða 25 kærur á mánuði.

Brotin eru misalvarleg með tilliti til meiðsla, allt frá minniháttar pústrum yfir í kýlingar og jafnvel spörk þar sem áverkar geta verið miklir. Þá eru ástæður þeirra mismunandi en langflest eru þau tilviljanakennd og má rekja til ölvunar.

Í því skyni að auka öryggi og öryggistilfinningu íbúa miðborgarinnar og gesta hennar og fækka þar ofbeldisbrotum, hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóri í sameiningu sett af stað tilraunaverkefni í sumar sem miðar að auknu sýnilegu eftirliti, meðal annars göngueftirliti og reiðhjólaeftirliti auk þess sem stefnt er að fjölgun eftirlitsferða á merktum lögreglubifreiðum embættanna.

Þá verði aukinn þungi settur í eftirlit lögreglu í miðborginni aðfaranótt laugardags og sunnudags milli kl. tvö og fimm, en reynslan hefur sýnt að flest ofbeldisbrotin eiga sér stað á þeim tíma. Markmiðið er að koma í veg fyrir brot, stytta viðbragðstíma og auka hlutfall upplýstra brota.

Hvetur lögreglan aðra einnig til árvekni í þessu sambandi, að taka afstöðu gegn ofbeldi og gera þannig sitt til að fækka brotum.

Verkefni lögreglu verður metið vikulega og mat lagt á árangur þess. Því lýkur formlega 15. september og verður þá tekin ákvörðun um framhaldið.

Miðborg