11 Janúar 2008 12:00

Tveir karlar hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 15. janúar en þeir voru handteknir á Laugavegi í nótt þar sem þeir réðust að lögreglumönnum við skyldustörf. Krafist verður gæsluvarðhalds yfir þriðja manninum sem var einnig handtekinn á vettvangi í nótt. Rúmlega tvítug stúlka var einnig færð á lögreglustöð vegna rannsóknar málsins en henni var sleppt úr haldi fljótlega. Síðdegis voru tveir karlar til viðbótar handteknir á heimili sínu í borginni vegna sama máls en krafist verður gæsluvarðhalds yfir þeim. Karlarnir fimm, sem eru á aldrinum 19-25 ára, eru allir af erlendu bergi brotnir.

Það var við hefðbundið fíkniefnaeftirlit sem var veist að lögreglumönnunum en þeir voru að sinna máli sem var árásarmönnunum óviðkomandi með öllu. Eftir átök á vettvangi þurftu fjórir lögreglumenn að leita sér aðhlynningar á slysadeild en tveir þeirra voru fluttir þangað með sjúkrabíl en hinir voru með minni áverka. Þrír voru útskrifaðir eftir skoðun en þeim fjórða var haldið þar mun lengur. Hann hefur nú verið útskrifaður en verður frá vinnu fyrst um sinn.