18 Janúar 2008 12:00
Fimm karlar hafa verið úrskurðaðir í farbann til 1. febrúar en hinir sömu sátu í gæsluvarðhaldi í eina viku. Mennirnir, sem eru á aldrinum 19-25 ára og eru allir af erlendu bergi brotnir, réðust að lögreglumönnum við skyldustörf aðfaranótt föstudagsins 11. janúar. Þrír þeirra voru handteknir á vettvangi en tveir á heimili sínu í Reykjavík.
Það var við hefðbundið fíkniefnaeftirlit sem var veist að lögreglumönnunum en þeir voru að sinna máli sem var árásarmönnunum óviðkomandi með öllu. Eftir átök á vettvangi þurftu fjórir lögreglumenn að leita sér aðhlynningar á slysadeild en tveir þeirra voru fluttir þangað með sjúkrabíl en hinir voru með minni áverka. Þrír voru útskrifaðir eftir skoðun en þeim fjórða var haldið þar mun lengur en sá er enn frá vinnu.