15 Desember 2009 12:00

Svo virðist sem öflug nágrannavarsla sé nú í Hlíðunum í Reykjavík en í tvígang hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtekið þar innbrotsþjófa eftir að íbúar í hverfinu tilkynntu um grunsamlegar mannaferðir. Í báðum tilvikum, á föstudaginn var og um þar síðustu helgi, var um að ræða innbrot í Háteigsskóla þar sem skjávörpum var stolið. Fimm innbrotsþjófar komu við sögu í þessum tveimur málum en þeir eru allir um tvítugt.

Lögreglan telur þessa íbúa í Hlíðunum til fyrirmyndar og hvetur aðra til að fylgja fordæmi þeirra og láta vita um grunsamlegar mannaferðir. Það getur oft skipt miklu máli að fá lýsingu á mönnum og bifreiðum. Það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessi tagi en einu sinni of sjaldan.