30 Ágúst 2007 12:00
Útköll lögreglu eru af ýmsum toga en nú er það ekki lengur einsdæmi að laganna verðir séu kallaðir til þegar tölvunotkun unglinga gengur úr hófi fram og foreldrar eru ráðþrota. Síðdegis í gær voru lögreglumenn kallaðir að heimili á höfuðborgarsvæðinu en þar hafði kastast illilega í kekki hjá móður og syni hennar á unglingsaldri.
Málavextir voru á þá leið að strákurinn hugðist vera í MSN í tölvunni en það er velþekktur samskiptamáti á netinu. Móðirin hafði hins vegar falið honum það hlutverk að taka leirtauið úr uppþvottavélinni. Þeim tókst ekki að ná samkomulagi um að forgangsraða hlutunum og svo fór að strákurinn missti stjórn á skapi sínu. Hann skemmdi eitthvað af húsgögnum á heimilinu og fór svo út í fússi.
Unglingurinn var því á bak og burt þegar komið var á vettvang en móðirin bað lögreglumenn um að hræða soninn, ef það væri til þess fallið að hann bætti ráð sitt. Til þess kom ekki enda er það tæpast hlutverk lögreglunnar.