1 Nóvember 2006 12:00

Á síðasta sólarhring voru mynduð brot 121 ökumanns á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Meðalhraði hinna brotlegu var liðlega 82 km/klst en sá sem hraðast ók mældist á 115. Þarna er 60 km hámarkshraði og því telst um ofsaakstur að ræða enda eru þetta ein fjölförnustu gatnamót borgarinnar.

52 ökumenn til viðbótar voru teknir fyrir hraðakstur á hinum ýmsu stöðum í borginni en bílar þriggja þeirra mældust á rúmlega tvöföldum leyfilegum hámarkshraða. Þá var tilkynnt um sextán umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík en ekki er vitað um nein slys á fólki. Fimm ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og sex fyrir að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað.