10 Maí 2007 12:00

Karlmaður um tvítugt var tekinn fyrir ofsaakstur seint í gærkvöld. Bíll hans mældist á 153 km hraða á Gullinbrú í Grafarvogi en þar er leyfður hámarkshraði 60. Ökumaðurinn, sem var staðinn að hraðakstri í öðru lögregluumdæmi í síðasta mánuði, var færður á lögreglustöð. Þar var hann yfirheyrður og sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.

Þess má geta að fyrr í vikunni var karlmaður á svipuðum aldri sömuleiðis tekinn fyrir hraðakstur á Gullinbrú. Sá ók á 134 km hraða og verður fyrir vikið sviptur ökuréttindum í þrjá mánuði og gert að greiða 110 þúsund króna sekt að auki. Viðkomandi hefur einnig verið staðinn að hraðakstri áður.