26 September 2023 11:01
Daglega eru ökumenn staðnir að hraðakstri í umdæminu og fá sekt fyrir vikið. Þegar hraðinn er orðinn sérstaklega mikill eru hinir sömu jafnframt sviptir ökuréttindum í ákveðinn tíma fyrir brot sín og í grófustu hraðakstursmálunum er síðan gefin út ákæra. Eitt slíkt mál kom til kasta lögreglu í gærkvöld, en þá mældist hraði bifreiðar á Reykjanesbraut í Kópavogi vera 191 þar sem leyfður hámarkshraði er 80. Ökumaðurinn, karlmaður á þrítugsaldri, var í kjölfarið sviptur ökuréttindum til bráðabirgða, en hann á jafnframt ákæru yfir höfði sér.
Vonandi er að viðkomandi láti þetta sér að kenningu verða, en með slíkum ofsaakstri stefnir hann bæði sjálfum sér og öðrum vegfarendum í mikla hættu.