13 Desember 2006 12:00
Nokkrir ungir ökumenn komu við sögu lögreglunnar í Reykjavík í gær og nótt vegna umferðarlagabrota. Sautján ára piltur, sem fékk ökuskírteini fyrir liðlega hálfum mánuði, var tekinn fyrir hraðakstur á Gullinbrú í Grafarvogi eftir miðnætti í nótt. Bíll hans mældist á 141 km hraða en leyfður hámarkshraði á þessum stað er 60. Jafnaldri hans, sem fékk ökuskírteini fáeinum dögum fyrr, var stöðvaður á Hringbraut skömmu síðar en bíll hans mældist á 91 km hraða. Á sama stað var tvítugur piltur tekinn um svipað leyti. Bíll hans mældist á 85 km/klst en leyfður hámarkshraði þarna er 50.
Einn sautján ára piltur og annar tvítugur voru stöðvaðir á Reykjanesbraut á móts við Bústaðaveg í gærkvöld. Þeir óku á 100 og 107 km hraða en leyfður hámarkshraði á þessum kafla er 70. Þá var átján ára piltur stöðvaður fyrir hraðakstur í Ártúnsbrekku. Bíll hans mældist á 124 km hraða en leyfður hámarkshraði er 80. Sá ökumaður var tekinn fyrir ofsaakstur í september en þá ók hann bíl sínum á 150 km hraða í öðru umdæmi. Allir hinir ökumennirnir, sem hér eru nefndir til sögunnar, hafa líka áður komið við sögu lögreglu vegna umferðarlagabrota.
Tuttugu og þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring. Flest voru þau minniháttar en í einu tilviki var sjúkraflutningur. Í nótt var einn ökumaður tekinn fyrir ölvunarakstur. Þá stöðvaði lögreglan för þriggja ökumanna sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi.