4 Janúar 2007 12:00
Hálfþrítugur karlmaður var stöðvaður fyrir hraðakstur á Reykjanesbraut í Kópavogi í gærkvöld. Bíll hans mældist á 139 km hraða en á þessum kafla er leyfður hámarkshraði 70. Ökumaðurinn hefur all oft áður gerst sekur um hraðakstur. Nokkru áður voru tveir piltar um tvítugt teknir fyrir hraðakstur. Annar var stöðvaður á Kringlumýrarbraut á 130 km hraða en hinn á Hafnarfjarðarvegi á 120. Á umræddum stöðum er leyfður hámarkshraði 80. Allmargir ökumenn voru stöðvaðir fyrir hraðakstur í gær en nær allir þeirra óku á yfir 100 km hraða.
Einn var tekinn fyrir ölvunarakstur í gær og annar fyrir að aka undir áhrifum lyfja. Þá stöðvaði lögreglan för tveggja ökumanna sem höfðu aldrei öðlast ökuréttindi. Fimm voru teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og þrír voru stöðvaðir fyrir að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað.
Tuttugu og sex umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Flest voru þau minniháttar en einn ökumaður var fluttur á slysadeild eftir árekstur tveggja bíla á Fífuhvammsvegi í Kópavogi.