16 Júlí 2007 12:00

Tveir ökumenn voru teknir fyrir ofsaakstur í Reykjavík á laugardag. Bíll annars þeirra mældist á 160 km hraða á Sæbraut en bíll hins á 159 km hraða í Ártúnsbrekku. Ökumennirnir eru báðir karlmenn á fertugsaldri.

Annar þeirra hefur nokkrum sinnum áður verið staðinn að hraðakstri en þó ekkert í líkingu við þetta. Sá hinn sami gaf lögreglu þá skýringu að hann hefði verið á leið til kærustunnar sinnar. Spurður frekar út í málið sagði ökufanturinn að hann hefði haft farsímann hennar undir höndum og það hefði ekki mátt þola neina bið að koma gemsanum til skila.