2 Október 2006 12:00
Níutíu og þrír ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík um helgina. Þar af voru 73 sem mældust á yfir 100 km hraða. Brotin áttu sér stað á ýmsum stöðum í borginni en í nokkrum tilfellum var ekið á tvöföldum leyfilegum hámarkshraða. Það er ekki hægt að kalla neitt annað en ofsaakstur og ber vitni um ótrúlegt virðingarleysi gagnvart öllum vegfarendum.
Sæbrautin var ein þeirra gatna þar sem menn óku alltof hratt. Þar voru tveir ökumenn, 18 og 20 ára, í kappakstri í gærkvöld en þeir mældust á liðlega 130 km hraða. Nóttina áður stöðvaði lögreglan för annars ökumanns, 19 ára, á svipuðum stað en sá var á 137. Þá voru tveir ökuþrjótar, 17 og 18 ára, teknir fyrir hraðakstur á Gullinbrú á föstudag og laugardag en þeir óku á 120 km hraða. Það skal tekið fram að hámarkshraði á Sæbraut og Gullinbrú er 60 km/klst.
Þá var 21 árs ökumaður stöðvaður á Kringlumýrarbraut í fyrrinótt. Sá ók á 139 km hraða. Og enn einn ökuþrjóturinn var tekinn í Ártúnsbrekkunni síðdegis í gær. Hann ók á 132. Þetta eru vissulega sláandi dæmi en því miður ekki einsdæmi. Ljóst er að allmargir verða sviptir ökuleyfi eftir aðgerðir lögreglunnar um helgina og enn fleiri fá sekt.
Um helgina voru 46 umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar. Í sjö þeirra urðu slys á fólki sem leitaði aðstoðar á slysadeild. Þá varð eitt banaslys eins og þegar hefur komið fram í fréttum. Kona á sextugsaldri lést aðfaranótt sunnudags en ekið var á hana á mótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar. Í því hörmulega slysi leikur ekki grunur á hraðakstri.