26 Febrúar 2007 12:00

Sextíu og níu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Þetta voru aðallega karlmenn og sem fyrr eru ungir piltar áberandi í hópnum. Sautján ára strákur var stöðvaður á Reykjanesbraut á móts við Bústaðaveg. Bíll hans mældist á 121 km hraða en leyfður hámarkshraði er 70. Fyrir vikið má strákurinn, sem fékk bílpróf í síðasta mánuði, búast við 75 þúsund króna sekt og sviptingu ökuleyfis í einn mánuð. Jafnaldri hans, sem var tekinn á Kringlumýrarbraut á 133 km hraða, má reikna með sömu refsingu. Sautján ára piltur var tekinn á Breiðholtsbraut á 112 km hraða og tveir jafnaldar hans voru stöðvaðir í Ártúnsbrekku. Annar var á 119 en hinn á 124. Hraðakstur er þekkt vandamál í Ártúnsbrekku og því boðar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hert eftirlit þar sem og annars staðar í umdæminu.

Átján ára piltar voru teknir fyrir hraðakstur á Vesturlandsvegi, Kringlumýrarbraut og Hafnarfjarðarvegi svo dæmi séu tekin. Þeir óku á 122, 128 og 130 km hraða. Tuttugu og tveggja ára piltur var líka stöðvaður á Hafnarfjarðarvegi en bíll hans mældist á 130 km  hraða. Eldri og reyndari ökumenn voru heldur ekki til neinnar fyrirmyndar en karlmaður á fimmtugsaldri var stöðvaður í útjaðri Hafnarfjarðar. Sá ók á 135 km hraða. Grófasta umferðarlagabrotið var hins vegar framið á Hringbraut í Reykjavík þar sem leyfður hámarkshraði er 50. Þar mældist 23 ára bifhjólamaður á 133 km hraða. Hann var færður á lögreglustöð og sviptur ökuleyfi.

Lögreglan var líka við hraðamælingar í íbúðargötum og stöðvaði t.d. marga ökumenn í Hamrahlíð en þar óku nokkrir á tvöföldum leyfilegum hámarkshraða. Ökumaður var stöðvaður fyrir sömu sakir í Hraunbæ en í þokkabót var viðkomandi sömuleiðis að tala í síma undir stýri án þess að vera með handfrjálsan búnað. Sá var því greinilega með hugann við allt annað en aksturinn.