21 Janúar 2007 12:00

Tuttugu og einn ökumaður var tekinn fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Í þremur tilvikum var um ofsaakstur að ræða en þar áttu í hlut ökumenn sem allir eru 18 ára. Sá fyrsti var stöðvaður í útjaðri Hafnarfjarðar á föstudagskvöld en bíll hans mældist á 130 km hraða. Nokkrum klukkutímum síðar var annar tekinn á Reykjanesbraut í Kópavogi en sá ók líka á 130 en á báðum þessum stöðum er leyfður hámarkshraði 70. Þriðji pilturinn var stöðvaður á Sæbraut aðfaranótt sunnudags en bíll hans mældist á 124 km hraða en þar er leyfður hámarkshraði 60.

Níu ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur um helgina. Þetta voru átta karlmenn á aldrinum 25-47 ára og ein kona, 33 ára. Tveir þessara ökumanna voru stöðvaðir á föstudagskvöld, þrír aðfaranótt laugardags og fjórir aðfaranótt sunnudags.