21 September 2006 12:00
Fyrir allnokkra var gærdagurinn í Reykjavík sannkallaður óhappadagur því hinir sömu voru allir fluttir á slysadeild eftir slys og óhöpp af ýmsu tagi. Fyrst var ekið á átta ára stúlku á gangbraut en áverkar hennar eru taldir minniháttar.
Um kaffileytið skarst tólf ára drengur illa á hendi og var honum komið undir læknishendur. Ekki löngu síðar datt átta ára drengur úr tré en fallið var nokkuð hátt. Þá slasaðist fullorðin kona þegar á hana féll stykki af svölum eða úr glugga. Talið er að konan hafi handleggsbrotnað. Önnur fullorðin kona var svo flutt á slysadeild um kvöldmatarleytið. Hún varð fyrir því óláni að á hana féll kommóða. Við það gat konan sig hvergi hreyft en hún hlaut áverka á fótum.
En það var ekki bara mannfólkið sem naut aðstoðar lögreglunnar í gær. Af og til berast kvartanir vegna hunda sem ganga lausir eða gelta yfirgengilega, að mati þeirra sem hafa samband við lögregluna. Tvö slík mál komu til kasta lögreglunnar í gær en í öðru þeirra var hundurinn úti á svölum. Ekki er vitað hvort eigandi hans skildi hann þar eftir af ásettu ráði.