16 Febrúar 2009 12:00

Allnokkuð var um slys á fólki um helgina en lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust vel á annan tug tilkynninga þess efnis. Óhöppin voru af ýmsu tagi en minnst þrír beinbrotnuðu á laugardagsmorgun. Um var að ræða konu um fertugt sem datt úr stiga í Árbæ, tæplega tvítugan pilt sem ökklabrotnaði í knattspyrnuleik í Kópavogi og karl á fimmtugsaldri sem hrasaði í Háaleitishverfi. Á laugardag brenndist sömuleiðis ung stúlka þegar yfir hana helltist heitur drykkur. Hún var flutt á slysadeild en frekari upplýsingar um líðan hennar liggja ekki fyrir. Meirihluti tilkynninganna um slys á fólki var hinsvegar tilkomin vegna skemmtanahalds í miðborginni eða heimahúsum. Ýmsir gengu fullhratt um gleðinnar dyr en áverkar hinna sömu voru í flestum tilvikum minniháttar.