30 September 2008 12:00

Undanfarið hefur lögreglan haft nokkur afskipti af ökumönnum vegna stöðvunarbrota og svo verður áfram enda er mikið um að ökutækjum sé lagt ólöglega. Þetta á meðal annars við um miðborgina en sumir ökumenn flutningabíla virða ekki reglur sem gilda um vöruafgreiðslu á svæðinu. Um þetta hefur verið fjallað sérstaklega á lögregluvefnum og er greinilega full ástæða til. En bílum er líka illa lagt í ýmsum öðrum hverfum borgarinnar eins og lögreglumenn við eftirlit í vesturbænum komust að raun um í gærkvöld. Í fáeinum götum þar var að finna tæplega fjörutíu bíla sem lagt var á gangstéttum en eigendur eða umráðamenn þeirra eiga allir sekt yfir höfði sér. Í ljósi þessa er ekki úr vegi að rifja upp umferðarlögin en í þeim segir m.a. að lagning eða stöðvun ökutækis á gangstétt sé óheimil. Lögreglu berast margar kvartanir vegna þessa enda eiga gangandi vegfarendur oft erfitt með að komast leiðar sinnar af áðurnefndum sökum.

Meðfylgjandi eru tvær myndir sem voru teknar í miðborginni eftir hádegi á virkum degi sem sýna glöggt vandann sem við er að etja.