31 Júlí 2008 12:00

Þrátt fyrir að afleiðingar hraðaksturs geti verið hörmulegar eru sumir ökumenn sem láta sér ekki segjast. Það á sannarlega við um ökumann bifhjóls sem fór um Þingvallaveg í fyrrakvöld. Bifhjólinu var ekið á 245 km hraða en brotið er eitt það grófasta sem lögreglumenn hafa séð. Ökumanninum var ekki veitt eftirför en bæði hann og þeir sem á vegi hans urðu, voru augljóslega í mikilli hættu.

Þess má geta að þar sem lögreglan mætti bifhjólamanninum í fyrrakvöld, nærri afleggjaranum að Skálafelli, varð banaslys fyrir nokkrum árum en þá lést bifhjólmaður. Atvikið nú er því í senn bæði kaldhæðnislegt og einkar dapurlegt. Kross í minningu bifhjólamannsins er nú í vegkantinum á þessum sama stað.