30 Apríl 2007 12:00
Tuttugu og fimm ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina en í nokkrum tilvikum var um ofsaakstur að ræða. Á laugardagsmorgun var 22 ára karlmaður stöðvaður á Snorrabraut eftir stutta eftirför. Sá var á bifhjóli sem mældist á 120 km hraða. Við frekari skoðun kom jafnframt í ljós að bifhjólið var stolið. Á laugardagskvöld var 18 ára piltur tekinn fyrir hraðakstur í Hvassahrauni en sá ók á 137 km hraða.
Síðdegis á sunnudag var 19 ára piltur staðinn að hraðakstri utan borgarmarkanna en sá tók framúr ómerktri lögreglubifreið. Bíll piltsins mældist á 130 km hraða. Á sunnudagskvöld var 17 ára piltur stöðvaður á Sæbraut. Hann ók á 100 km hraða en leyfður hámarkshraði þar er 60. Pilturinn er nýkominn með bílpróf. Um svipað leyti var 17 ára stúlka stöðvuð á Vesturlandsvegi en hún ók á 123 km hraða.
Skömmu eftir miðnætti í nótt var 17 ára piltur tekinn í Garðabæ en bíll hans mældist á 141 km hraða á Hafnarfjarðarvegi. Nokkru síðar var för karlmanns á þrítugsaldri stöðvuð á Vesturlandsvegi en sá ók bíl sínum í Ártúnsbrekku á 138 km hraða.