4 Október 2006 12:00

Nítján ára piltur var tekinn fyrir ofsaakstur í Ártúnsbrekkunni í gærkvöld. Hann ók á 142 km hraða en leyfilegur hámarkshraði þarna er 80 km/klst. Fyrir þetta brot verður hann sviptur ökuleyfi og fær sekt að auki og vonandi hafa þau úrræði loksins tilætluð áhrif á þennan pilt sem hefur ítrekað brotið umferðarreglur.

Hann var tvívegis tekinn fyrir hraðakstur í september og jafnoft á vormánuðum. Í apríl ók hann á ofsahraða og missti þá ökuleyfið. Í sumar, þegar hann hafði ekki tekið út þá refsingu að fullu, var pilturinn tekinn fyrir aka gegn rauðu ljósi. Öllum má vera að ljóst að þessi ökumaður þarf að taka sig mikið á. Og er vonandi að hann átti sig líka á því sjálfur.

Sama má segja um 21 árs ökumann sem var líka tekinn fyrir hraðakstur í gærkvöld. Hann mældist á 136 km hraða á svipuðum slóðum og sá 19 ára. Eldri pilturinn hefur sömuleiðis margoft komið við sögu lögreglunnar vegna umferðarlagabrota. Þá hefur hann líka verið sviptur ökuleyfi vegna hraðaksturs og einnig átt erfitt með að taka út sína refsingu. Þ.e. hann hefur líka verið tekinn fyrir að aka réttindalaus.

Fjölmargir aðrir voru stöðvaðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík í gær. Þ.á.m. tvítugur piltur sem ók um íbúðargötu á rúmlega tvöföldum leyfilegum hámarkshraða. Fyrir vikið missir hann líka ökuleyfið.