30 Október 2006 12:00

Lögreglan í Reykjavík stöðvaði fjölmarga ökumenn fyrir hraðakstur um helgina en að venju var haldið uppi öflugu umferðareftirliti. Í nokkrum tilfellum var um ofsaakstur að ræða en helstu ökufantarnir voru allir teknir á Vesturlandsveginum.

Sá sem hraðast ók mældist á 158 km hraða en umræddur ökumaður, piltur sem varð sautján ára fyrir fáeinum vikum, er nánast nýkominn með bílpróf. Þetta er auðvitað hræðileg byrjun á ökumannsferli en pilturinn má þakka sínum sæla að enginn skyldi slasast við þessa fífldirfsku hans. Piltsins bíður nú ökuleyfissvipting og 60 þúsund króna sekt.

Ekki var aksturslagið betra hjá liðlega tvítugum pilti sem ók á 140 km hraða. Sama má segja um hálfþrítugan karlmann en bíll hans mældist á 133 km hraða. Þetta eru verstu dæmin frá helginni en því miður er af nógu að taka. Alls voru fjörutíu ökumenn teknir fyrir að aka á meira en 100 km hraða á hinum ýmsu götum. Ástandið í íbúðargötum er heldur ekki orðið nógu gott en einn ökumaður var tekinn þar fyrir að aka á rúmlega tvöföldum leyfilegum hámarkshraða.