12 September 2012 12:00

Nokkrir ökufantar voru teknir fyrir hraðakstur í Reykjavík í gær og nótt. Sá sem hraðast ók mældist á 173 km hraða á Reykjanesbraut, norðan Stekkjarbakka, síðdegis í gær. Um var að ræða karl um þrítugt en sá hefur oft áður komið við sögu hjá lögreglu vegna umferðarlagabrota. Viðkomandi hafði þegar verið sviptur ökuleyfi.

Þá voru tveir ökumenn staðnir að hraðakstri í Ártúnsbrekku í nótt en bílar þeirra mældust báðir á 141 km hraða. Við stýrið á öðrum þeirra var 19 ára piltur en 19 ára stúlka ók hinum bílnum. Bæði hafa þau áður verið tekin fyrir hraðakstur og nú eiga þau yfir höfði sér sviptingu ökuleyfis, auk sektar.