8 September 2009 12:00

Nokkuð bar á hraðakstri á höfuðborgarsvæðinu um helgina en lögreglan stöðvaði för allmargra ökumanna fyrir þær sakir. Ökufantarnir voru teknir víðsvegar í umdæminu en í grófustu brotunum var ekið á 70-80 km hraða umfram leyfðan hámarkshraða. Oftar en ekki áttu í hlut ungir ökumenn, eða piltar undir tvítugu. Þannig var 17 ára piltur staðinn að hraðakstri á Suðurlandsvegi en bíll hans mældist á 169 km hraða. Móðir piltsins kom á vettvang nokkru síðar. Henni var ekki skemmt og hafði á orði að svona ökufantar ættu ekki að hafa bílpróf! Fleiri ökufantar áttu leið um Suðurlandsveg en piltur á líku reki, eða 18 ára, ók þarna um á 145 km hraða. Báðir fá nú tækifæri til að hugsa ráð sitt enda kemur til svipting ökuréttinda þegar um svo gróf brot er að ræða. Sama má segja um rúmlega tvítugan pilt en hann ók bíl sínum á 166 km hraða á Krýsuvíkurvegi. Sá hefur áður verið staðinn að hraðakstri en þó ekkert í líkingu við þetta.