15 Nóvember 2006 12:00
Karlmaður á þrítugsaldri var stöðvaður fyrir hraðakstur á Sæbrautinni í gærmorgun. Bíll hans mældist á 112 km hraða en leyfilegur hámarkshraði er 60 km/klst. Fyrir þetta aksturslag á hann yfir höfði sér sekt og ökuleyfissviptingu. Ekki er þó víst að ökumaðurinn láti sér þetta að kenningu verða og taki upp aðra og betri siði í umferðinni. Hann hefur margoft verið tekinn fyrir umferðarlagabrot og mátt sæta sviptingu ökuleyfis í fjórgang, ýmist í einn, tvo eða þrjá mánuði í hvert sinn. Vonandi þarf þessi ökumaður ekki á fleiri lexíum að halda og hagar akstri sínum í samræmi við lög og reglur í framtíðinni.
Annar karlmaður á svipuðum aldri var stöðvaður fyrir hraðakstur á Vesturlandsveginum, nærri Höfðabakka, um miðjan dag. Bíll hans mældist á 134 km hraða en leyfilegur hámarkshraði á þessum hluta vegarins er 80 km/klst. Umræddur ökumaður hefur ekki áður komið við sögu lögreglunnar.
Sextán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring. Ekki var um nein alvarleg slys að ræða en í einu tilviki valt bíll í útjaðri borginnar en ökumaður og tveir farþegar sluppu ómeiddir. Fjórir voru teknir fyrir ölvunarakstur í gær og þá stöðvaði lögreglan för þriggja ökumanna sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi.