15 Nóvember 2019 18:32

Allnokkrir ökumenn voru staðnir að hraðakstri á Reykjanesbraut, við Hvassahraun, þegar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var þar við hraðamælingar eftir hádegi í gær. Í þeim hópi voru nokkrir ferðamenn og greiddu þeir sektina á staðnum, en allir sem voru stöðvaðir við þetta hraðaeftirlit mældust á vel yfir 100 km hraða. Sá sem hraðast ók var hins vegar íslenskur karlmaður á miðjum aldri, en bifreið hans mældist á 159. Viðkomandi bíður 230 þúsund kr. sekt, svipting ökuleyfis í tvo mánuði og þrír refsipunktar í ökuferlisskrá fyrir þennan ofsaakstur.