8 Desember 2006 12:00

Sautján ára piltur var tekinn fyrir hraðakstur á Sæbrautinni undir miðnætti í gær. Bíll hans mældist á 151 km hraða en leyfður hámarkshraði er 60. Pilturinn, sem fékk ökuréttindi í haust, á greinilega margt ólært en hann fær nú tíma til að hugsa ráð sitt. Fyrir brot sem þetta er ökuleyfissvipting í þrjá mánuði auk sektar. Þess má jafnframt geta að þessi sami ökumaður kom tvívegis við sögu lögreglunnar í sumar fyrir umferðarlagabrot. Þá ók hann bíl án þess að hafa öðlast ökuréttindi en í öðru tilvikinu var jafnframt um hraðakstur að ræða.

Tuttugu og þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring en í þremur tilvikum var um afstungur að ræða. Karlmaður á miðjum aldri var tekinn fyrir ölvunarakstur í miðbænum í nótt en grunur leikur á að hann hafi líka verið undir áhrifum fíkniefna.

Þá stöðvaði lögreglan för þriggja ökumanna sem höfðu þegar verið sviptir ökuréttindum. Þeir voru teknir samtals fimm sinnum í gær því tveir þeirra létu sér ekki segjast. Í öðru tilfellinu var um að ræða konu á þrítugsaldri. Akstur hennar var stöðvaður í austurbænum í gærmorgun en hún fór aftur á stjá innan við klukkustund eftir að afskiptum af fyrra máli hennar lauk. Í hinu tilfellinu átti í hlut karlmaður um þrítugt. Hann var stöðvaður í miðborginni um miðjan dag og svo aftur í vesturhluta borgarinnar um kvöldið.