22 Mars 2007 12:00
Tuttugu og átta umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær en eitt þeirra má rekja til ölvunaraksturs. Í fjórum tilfellum var fólk flutt á slysadeild en í einu tilviki var um hjólreiðamann að ræða. Á hann var ekið í Kópavogi en óttast var að maðurinn hefði fótbrotnað. Engin vitni voru að slysinu.
Fáeinir ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur. Í þeim hópi var hálffertugur karlmaður sem var stöðvaður á Reykjanesbraut í Kópavogi. Maðurinn ók langt yfir leyfðum hámarkshraða en í samtali við lögreglumenn sagðist hann skammast sín. Var á manninum að skilja að búast mætti við bót og betrun af hans hálfu hvað varðar aksturslag. Vonandi gengur það eftir en maðurinn hefur oft áður verið tekinn fyrir hraðakstur.
Á síðasta sólarhring voru tveir ökumenn teknir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir að aka undir áhrifum lyfja. Þá voru skráningarnúmer tekin af tuttugu og þremur ökutækjum sem öll voru ótryggð.