30 Nóvember 2006 12:00

Það er ekki oft sem lögreglan í Reykjavík hefur afskipti af ökumönnum á tíræðisaldri. Sú var þó raunin síðdegis í gær en þá var tilkynnt um umferðaróhapp í miðbænum. Þar höfðu tveir bílar rekist saman en tjónvaldurinn ók strax á brott og því sat hinn ökumaðurinn eftir með sárt ennið. Við eftirgrennslan kom í ljós að tjónvaldurinn var á tíræðisaldri en hann játaði sök í málinu þegar lögreglan ræddi við hann. Það skal tekið fram að þessi fullorðni ökumaður hefur ekki áður gerst sekur um umferðarlagabrot.

Annars var umferðin í borginni með sæmilegasta móti á síðasta sólarhring en alls var tilkynnt um fimmtán umferðaróhöpp, flest minniháttar. Nokkrir voru stöðvaðir fyrir hraðakstur og einn var tekinn fyrir ölvunarakstur. Brot 27 ökumanna voru mynduð á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar en meðalhraði ökutækjanna var liðlega 83 km/klst. Á þessum stað er mjög mikil umferð og því telst þetta ekki hátt hlutfall. Það vekur hins vegar athygli að á þessum sama stað aka allmargir gegn rauðu ljósi en 19 ökumenn voru staðnir að því.