21 Desember 2011 12:00

Karl um sextugt sofnaði við stýrið á bíl sínum þegar hann var staddur á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar í síðdegisumferðinni í gær. Bíll mannsins var á rauðu ljósi þegar þetta gerðist og eðlilega olli þetta hættu og óþægindum fyrir aðra vegfarendur. Svo heppilega vildi til að lögreglan var við eftirlit á gatnamótunum á sama tíma og náðu lögreglumenn að vekja ökumanninn. Í framhaldinu var bíl mannsins komið fyrir á bílastæði við Kringluna en manninum var gert að hætta akstri tafarlaust. Hann sagðist ekkert hafa sofið síðustu nótt og var manninum skipað að hvílast vel áður en hann settist aftur við stýrið.

Þetta atvik minnir okkur á mikilvægi þess að ökumenn hafi einbeitinguna í lagi. Sæki að þeim syfja eða þreyta er nauðsynlegt að gera hlé á akstrinum og halda síðan ferðinni áfram þegar viðkomandi ökumaður hefur náð að hvílast. Sé það ekki gert kann að fara mjög illa.