13 Júní 2018 14:48
Karlmaður um fertugt var síðdegis í gær í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald í þágu rannsóknar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á umferðarslysi á Reykjanesbraut í Hafnarfirði í gærmorgun. Talið er að glæfralegu aksturslagi mannsins sé um að kenna, en tíu bílar skemmdust í slysinu og var ökumaður eins þeirra fluttur á slysadeild til aðhlynningar.
Maðurinn, sem er í haldi lögreglu, ók svartri Suzuki Swift bifreið, en nokkrar tilkynningar um háskalegt aksturslag hans bárust lögreglu skömmu fyrir slysið. Minnt er á að lögreglan óskar eftir upplýsingum um bifreiðina, en þar er átt við myndskeið af ferð bílsins á Reykjanesbraut í aðdragana slyssins ef einhver kann að hafa slíkt undir höndum. Upplýsingum má koma á framfæri í tölvupósti á netfangið rosa@lrh.is eða í síma 444 1000. Einnig er tekið við ábendingum í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu embættisins.