12 Janúar 2012 12:00

Það er heldur óskemmtileg reynsla að verða bensínlaus á miðri leið þegar farið er á milli staða. Sérstaklega á þetta við þegar slíkt kemur upp á stofnbrautum en þá er beinlínis hætta á ferðum, ekki síst í skammdeginu. Undanfarið hafa mörg mál af þessu tagi komið á borð lögreglunnar en hún hvetur ökumenn til að sýna fyrirhyggju í þessum efnum og vera þess fullvissir að nægilegt eldsneyti sé til staðar áður en lagt er af stað.

Þegar ökutæki skapa hættu í umferðinni, eins og áður var lýst, á lögreglan um fátt annað að velja en að láta fjarlægja viðkomandi ökutæki með kranabifreið og á kostnað umráðamanns eða eiganda. Í ljósi þessa hvetur lögreglan ökumenn til að sýna meiri ábyrgð og stuðla þannig að eigin öryggi sem og annarra.