8 Febrúar 2008 12:00
Brot 51 ökumanns var myndað á Kringlumýrarbraut frá miðvikudegi til föstudags en fylgst var með ökutækjum sem var ekið í norðurátt, þ.e. yfir gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Umrædd vöktun stóð yfir í tæpar fjörutíu og fimm klukkustundir en á tímabilinu fóru 21.476 ökutæki þessa akstursleið. Örfáir ökumenn, eða 0,02%, óku því of hratt eða yfir afskiptahraða en þess má geta að aðstæður til aksturs voru slæmar, hálka og snjókoma. Þessi niðurstaða ber það með sér að ökumenn hafa greinilega tekið tillit til aðstæðna og er það vel.
Meðalhraði hinna brotlegu var rúmlega 71 km/klst en sá sem hraðast ók mældist á 84 en þarna er 60 km hámarkshraði. Við sömu vöktun var á þriðja tug ökutækja ekið gegn rauðu ljósi.