14 Apríl 2018 09:30

Starf lögreglumannsins er ekki hættulaust og ýmislegt getur gerst á vaktinni eins og sannaðist á einni helgarvaktinni í vetur, en þá ók ökumaður í annarlegu ástandi á lögreglubifreið í austurborginni eina nóttina. Áður hafði verið tilkynnt að ökumaðurinn hefði reynt að aka á starfsmann fyrirtækis annars staðar í hverfinu, en farið þaðan og ekið á ofsahraða stuttan spöl uns hann varð á vegi lögreglunnar. Ekki varð ákeyrslan til þess að maðurinn næmi staðar heldur hélt hann för sinni áfram eins og ekkert hefði í skorist. Honum var veitt eftirför og sá þá sæng sína útbreidda, stöðvaði bílinn og reyndi að komast undan lögreglumönnunum á tveimur jafnfljótum. Kappinn var hins vegar hlaupinn uppi og snúinn niður, en sjálfsagt hefur það verið eilítið sérkennileg sjón því maðurinn var nakinn. Fötin hans voru samt ekki langt undan, en ekki er vitað af hverju hann klæddi sig úr þeim. Lögreglubíllinn skemmdist nokkuð við áreksturinn, en miklu verra var að lögreglumennirnir voru verulega lemstraðir eftir höggið og þurftu í framhaldinu að leita sér aðstoðar á slysadeild og voru í kjölfarið frá vinnu um tíma. Hér fór þó samt betur en á horfðist, en það var alls ekki ökumanninum að þakka. Þess má geta að sá hefur alloft áður komið við sögu hjá lögreglu.