20 Apríl 2007 12:00
Áfengi kemur gjarnan við sögu í mörgum þeirra mála sem koma til kasta lögreglu og gærdagurinn var engin undantekning í þeim efnum. Karlmaður á miðjum aldri kom á lögreglustöð í gær til að kæra þjófnað á bíl. Þegar betur var að gáð reyndist maðurinn hafa lánað bílinn sinn fyrir hálfum mánuði. Þá var maðurinn við drykkju og mundi nú öll málsatvik að því undanskildu hver fékk bílinn að láni. Með hjálp lögreglu tókst að finna bílinn sem er nú væntanlega kominn aftur í réttar hendur.
Í gær var sömuleiðis tilkynnt um skemmdir á innanstokksmunum í íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Húsráðandi hafði brugðið sér frá í sólarhring en á meðan dundu ósköpin yfir. Við rannsókn kom hinsvegar í ljós að ekki var um innbrot að ræða. Annar heimilismaður hafði drukkið ótæpilega og reyndist sá sekur í málinu. Tjónvaldurinn viðurkenndi verknaðinn en gat engar skýringar gefið aðrar en þær að um ölæði hefði verið að ræða.