14 Maí 2005 12:00

Um miðnætti í nótt barst lögreglu tilkynning um ólæti í Löngumýri í Garðabæ, 10 til 15 piltar þar að slást og bílum ekið óvarlega í götunni. Er lögregla kom á staðinn var talsverður æsingur í þeim er þar voru og slagsmál yfirstandandi. Þurfti lögregla að beita táragasi til að ná tökum á ástandinu. Tveir einstaklingar, piltar á átjánda ári sem ítrekað hafa komið við sögu lögreglu, voru handteknir vegna málsins.

Laust eftir miðnætti barst lögreglu svo tilkynning um ólæti að Lyngmóum í Garðabæ. Þar voru þá fyrir um 10 einstaklingar, að hluta til þeir sömu og verið höfðu í Löngumýri skömmu áður, en einnig voru þar íbúar við Lyngmóa. Voru tveir piltar, sautján og átján ára gamlir, handteknir af lögreglu vegna óláta er þeir stóðu fyrir og slagsmála.