28 Janúar 2010 12:00
Nokkrir tugir ökumanna voru teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu í gær. Í þeim hópi var kona á þrítugsaldri en hún var stöðvuð á Reykjanesbraut eftir að bíll hennar mældist á yfir 120 km hraða. Aðspurð um þessa hraðferð sagðist hún vera ólétt, væri komin með hríðarverki og þyrfti að flýta sér á slysadeild. Að því sögðu var henni fylgt þangað beinustu leið en ekki mun þó vera von á barninu alveg strax. Konan má samt búast við því að eftirmál verði vegna hraðakstursins en hún reyndist einnig vera próflaus.
Sem fyrr segir voru allmargir staðnir að hraðakstri í gær en grófasta brotið framdi tvítugur piltur sem einnig átti leið um Reykjanesbraut í Garðabæ. Bíll hans mældist á 150 km hraða og var pilturinn sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Hann hefur áður gerst sekur um umferðarlagabrot.