1 Desember 2010 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag framkvæmt níu húsleitir, sjö á Akureyri og í nágrenni og tvær á höfuðborgarsvæðinu, í þágu rannsóknar á stórfelldu, ólöglegu niðurtali. Tíu einstaklingar á aldrinum 15-20 ára eru grunaðir um aðild að málinu. Þeim var öllum sleppt að lokinni skýrslutöku hjá lögreglu í kvöld. Lagt hefur verið hald á töluvert magn af tölvum og tölvubúnaði auk þess sem marijúana, um 80 grömm, fannst í einu húsanna. Rannsókn málsins hefur staðið yfir um nokkurt skeið en upphaf þess má rekja til kæru sem Samtök myndrétthafa lögðu fram og sneri að ólöglegu niðurtali efnis af Netinu og dreifingu þess, þ.e. ólögleg dreifing á höfundarréttavörðu efni.

Við aðgerðirnar í dag hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu notið aðstoðar lögreglumanna frá embætti ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Akureyri. Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun greina frekar frá rannsókninni þegar aðstæður leyfa.