2 Nóvember 2006 12:00

Tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík í gærkvöld og nótt. Annar var stöðvaður í miðbænum en sá, karlmaður um fertugt, reyndist jafnframt þegar hafa verið sviptur ökuréttindum. Hinn ökumaðurinn var 17 ára stúlka en hún var stöðvuð í austurbænum. Stúlkan fékk ökuréttindi fyrir fáeinum vikum. Lögreglan stöðvaði líka för tveggja kynsystra hennar en báðar óku þær bílum sínum þrátt fyrir að hafa þegar verið sviptar ökuréttindum. Önnur þeirra er liðlega tvítug en hin er á fertugsaldri.

Nokkrir voru teknir fyrir hraðakstur en sá sem hraðast ók mældist á 132 km hraða á Suðurlandsvegi. Þar var á ferð hálffertug kona. Fimm ökumenn voru teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi í borginni í gær en einn þeirra, hálfþrítugur karlmaður, gerði það í tvígang. Hinn sami ætti að líta í eigin barm því svona aksturslag er ólíðandi. Lögreglan stöðvaði líka för nokkurra ökumanna sem ýmist voru ekki með beltin spennt eða töluðu í síma án þess að vera með handfrjálsan búnað.

Tuttugu og tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í gær, flest minniháttar, en ekki er vitað um nein teljandi meiðsli á fólki. Í fjórum tilfellum var um afstungur að ræða. Þá voru skrásetningarnúmer klippt af sjö ökutækjum, ökumenn fimm þeirra höfðu ekki sinnt ákvæðum um skoðun og tveir voru á ótryggðum ökutækjum.