29 Júlí 2008 12:00

Karl um fertugt var handtekinn í miðborginni í nótt en sá reyndi að stjórna reiðhjóli með misjöfnum árangri. Þegar lögreglan fékk tilkynninguna um reiðhjólamanninn var hann sagður neðarlega á Laugavegi en með upplýsingunum fylgdi að aksturslag mannsins væri ansi skrykkjótt. Laganna verðir brugðust snarlega við þessu útkalli og svipuðust um eftir kauða en þegar til hans náðist var reiðhjólakappinn kominn í Austurstræti. Þar var maðurinn, sem var verulega ölvaður, handtekinn hið snarasta enda ljóst að hann var hvorki fær um að stjórna þessum fararskjóta né öðrum farartækjum yfirleitt. Maðurinn tók afskiptum lögreglu mjög illa og neitaði að segja til nafns en hann var færður á lögreglustöð og látinn sofa úr sér áfengisvímuna. Vegna þessa máls er rétt að rifja upp 45. gr. umferðarlaga en í henni er fjallað um brot af þessu tagi og þar segir m.a; Enginn má hjóla eða reyna að hjóla eða stjórna eða reyna að stjórna hesti, ef hann er undir svo miklum áhrifum áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna, að hann geti eigi stjórnað hjólinu eða hestinum örugglega.