25 Júlí 2008 12:00
Þrír ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í Reykjavík í gær og nótt. Einn þeirra, tæplega þrítugur karl, var stöðvaður í Árbæ en aksturslag hans vakti athygli lögreglumanna við eftirlit en maðurinn ók alltof hratt miðað við aðstæður. Maðurinn þrætti ekki fyrir óábyrgan akstur en reyndi að segja sér til varnar að bíllinn væri bremsulaus. Við athugun á ökutækinu reyndist það rétt vera en breytti því í engu að viðkomandi var handtekinn og færður á lögreglustöð enda glapræði að aka drukkinn og í þokkabót á bremsulausum bíl. Þessi ökumaður má teljast mjög heppinn að lögreglan skyldi ná að stöðva för hans áður en illa færi.
Til viðbótar voru tveir ökumenn teknir í Reykjavík fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Í fórum annars þeirra, hálfþrítugs karls, fundust jafnframt ætluð fíkniefni.