3 Maí 2007 12:00

Tilkynnt var um karlmann á miðjum aldri í Tjörninni í gærkvöld. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var maðurinn, sem er að öllum líkindum japanskur ferðamaður, kominn á þurrt. Hann gat enga grein gert fyrir þessu háttalagi og stóð vart í fæturna sökum ölvunar. Maðurinn var færður á lögreglustöð en ekki er vitað fyrir víst hvort hann stakk sér til sunds eða datt í Tjörnina.

Í nótt hafði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu afskipti af tveimur öðrum karlmönnum í miðborginni sem einnig höfðu drukkið ótæpilega. Annar þeirra neitaði því algerlega að vera undir áhrifum áfengis og var hann látinn blása í mæli til að sannreyna það. Niðurstaðan sýndi óumdeilanlega að maðurinn hafði hvergi dregið af sér við drykkjuna og var hann því færður á lögreglustöð. Ekki þótti ástæða til að láta félaga mannsins blása í mæli og var sá einnig færður á lögreglustöð og látinn sofa úr sér áfengisvímuna. Báðir mennirnir eru um fimmtugt.