2 Október 2006 12:00

Töluvert bar á drykkju um helgina og lögreglan í Reykjavík þurfti að hafa afskipti af mörgum borgurum sem voru til ama af þeim sökum. Þá áttu ýmsir í útistöðum og lögreglan þurfti að skakka leikinn í þeim tilfellum. Um helgina var jafnframt sérstakt eftirlit með útivist barna og unglinga. Ekki bar mikið á þessum hópi úti við en það segir þó ekki alla söguna. Í haust hefur verið nokkuð um unglingapartí og svo var einnig nú. Lögreglunni bárust nokkrar kvartanir vegna hávaða frá unglingapartíum sem og gleðskap fullorðinna í heimahúsum.

Einnig var tilkynnt um nokkuð af skemmdarverkum. Þannig voru unnar skemmdir á tíu bifreiðum en rúður voru brotnar í helmingi þeirra. Aðrar voru skemmdar með málningu eða kroti. Þá voru brotnar rúður í þremur skólum og stofnunum. Af þessu má sjá að helgin var erilsöm hjá lögreglunni en á hennar borð komu nokkur hundruð mál til úrlausnar. Ekki var hægt að leysa þau öll og sum áttu ekki erindi til lögreglunnar. Þannig var t.d. um ágreining ónefndra aðila þar sem bitbeinið var naggrís og eignarhald á honum. Viðkomandi var bent á að þar væri um einkamál að ræða.