12 Febrúar 2010 12:00

Þrír voru teknir fyrir ölvunarakstur í Reykjavík í nótt. Tveir voru stöðvaðir í miðborginni og einn á Miklubraut en þetta voru allt karlar á þrítugsaldri. Tveir voru sömuleiðis teknir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Stúlka um tvítugt var tekin fyrir þessar sakir á Sæbraut í gærkvöld en þar lenti hún í umferðaróhappi og reyndi að komast undan á hlaupum. Eftir miðnætti var piltur á líku reki stöðvaður af sömu ástæðu í miðborginni en sá hefur aldrei öðlast ökuréttindi. Nokkru áður hafði lögreglan stöðvað akstur karls á fimmtugsaldri en viðkomandi hafði þegar verið sviptur ökuleyfi. Maðurinn var tekinn í miðborginni.